Ætli þeir séu að æfa fyrir skautahlaup á OL?

Ef engin er aðstaðan til skautaiðkunar, þá leita menn lausna til að bæta úr því. En í þessu myndbandi finnst mér nú full langt seilst til þess arna. Og það á sandölum á yfir 100 km. hraða!Shocking


Herbergi uppgötvað í húsi við Laufásveg

Við Laufásveginn, þar sem vinnustaður minn er til húsa, drýpur sagan af hverju strá15-220i og úr hverju húsi. Hefur margt merkt fólk búið við götuna og gerir enn. Sagan sem ég heyrði fyrir allnokkru, gerist í einu af þeim húsum sem við götuna standa og segir svo frá þegar Albert heitinn Guðmundsson (fyrrum þingmaður og ráðherra) var ný fluttur heim á klakann, eftir gifturíkan feril í atvinnuboltanum út í Evrópu einhvern tíman upp úr miðri síðustu öld. Hafði hann ásamt konu sinni fest kaup á og flutt inn í stórt einbýlishús við Laufásveginn.

Eitt sinn átti hann að hafa fengið til sín málarameistara til að mála alla veggi og loft innanstokks á Laufásveginum. Þegar Albert taldi sig vera búinn að sýna málarameistaranum inn í hvert herbergi á öllum hæðum sem mála þyrfti. Þá spyr  málarameistarinn Albert og bendir á einar herbergisdyrnar innst í ganginum niðri í kjallara, þar sem þeir voru staddir: ,,Hvað með þetta herbergi, á ekki að mála það líka?" Albert horfir hugsi á dyrnar um stund, tekur svo í snerilinn og opnar inn í umrætt herbergi og segir; ,,Ég vissi nú bara ekki af þessu herbergi hérna!"

Af þessari frásögn má ætla að húsið hafi verið svo stórt að húsráðandi hafi sennilega ekki komist í að kanna það til fullnustu, þrátt fyrir að vera fluttur inn, áður en hann fékk til sín málarann. Það má geta þess að þetta umrædda einbýlishús, sem hýsti Albert og fjölskyldu forðum, gekkst undir mikla endurnýjun og stækkun á síðasta ári. Kannski er það til marks um breytta tíma og kröfur um meira húsrými, að núverandi eigendum hefur  sennilega eitthvað þótt vanta upp á plássið í því.


Ótrúlegur IDOL þátttakandi í Frakklandi

 Joseph er 21 árs gamall Frakki sem tók þátt í franska Idolinu á síðasta ári og heillaði dómarana með ótrúlegum ,,beat box" töktum. Einn þeirra átti erfitt með að trúa sínum eigin eyrum!

 


Hausthúsar þorrablót

Afi og amma, ásamt börnum á sextugsafm. 1975

Síðan Gísli afi og Auðbjörg amma frá Hausthúsum á Snæfellsnesi kvöddu þetta jarðlíf (amma 1993 og afi 1994), þá hafa afkomendur og tengdabörn minnst þeirra með því að koma saman á þorranum allar götur síðan 1994 með því að borða saman góðan mat, þ.m.t. þorramat. Fáum árum seinna bættust við afkomendur Benediktu (systur ömmu) og Teits mannsins hennar, sem bæði eru látin. Ýmsar hefðir hafa skapast frá því að hópurinn hóf fyrst að koma saman af þessu tilefni eins og gengur og gerist hjá stórfjölskyldum.

Hefðirnar eru í megin dráttum þessar: Skipst er á að halda þetta heima hjá þeim sem hafa nóg húsrúm til að hýsa veislurnar sem geta talið ca. 70 manneskjur í dag (ef allir myndu mæta). Hver og ein fjölskylda leggur til mat í veisluborðið allt frá kæstum hákarli og gallsúru hvalrengi í forrétt, til heimatilbúinna blandaðra ávaxta og háklassa ís frá París í eftirrétt, semsagt eitthvað fyrir allaDSC01703. Þá er gjarnan fluttur fjölskylduannáll á léttu nótunum af Jóhannesi Bekk, tengdasyni afa og ömmu eða Þórarni Magna, dóttursyni þeirra, þar sem stiklað er á stóru í lífi hverrar fjölskyldu. Einnig er dúkkað upp með önnur atriði sem eru af ýmsu tagi milli ára. Það hefur m.a. verið boðið upp á leikþætti, leiki, rímur, söng, "heima" gert videó og gamanmál. Þegar líða tekur á kvöldið kemur æðsta ráð stórfjölskyldunnar saman til að útnefna þann sem hefur skarað fram úr á s.l. ári á einhvern hátt. Eru tilefni tilnefninga oft æði misjöfn, allt frá eftirminnilegum hrekkjum (meinlausum þó) til einhverslags afreka eða leiksigra. Verðlaunin er farandgripur til eins árs í senn sem hefur verið nefndur Gíslinn. Gripur þessi (ca. 40 cm hár) stendur á eikarstöpli þar sem fjórir ryðfríir stálteinar standa upp úr honum miðjum, sem enda svo á að um liggja græna netaglerkúlu. Kúlan var áður í eigu Jónu móður minnar og átti hún þá hugmynd hvort ekki mætti útbúa einhvern farandgrip í þorrablót fjölskyldunnar þar sem kúlan væri miðdepill verksins þar sem hún hefði svo sterka skírskotun til Hausthúsa sem liggur jú að sjó. Gripurinn var síðan fullhannaður og smíðaður af Magnúsi Gíslasyni í kringum aldamótin síðustu á verkstæði hans Stálprýði. Þetta er mikið listaverk og er það jafnan mikill heiður fyrir hvern þann sem vinnur til þessa grips og þar með titlaður "Gíslatökumaður" í eitt ár. Oftast endar svo dagskráin með miklum söng og gítarspili fram undir morgun. 

 Á laugardaginn 9 febrúar s.l. var komið að því að halda þessa stórhátíð heima hjá okkur hjónunum.  Blásið var til veislu klukkan 19:00 og voru flestir mættir á tilsettum tíma, uDSC01713tan Auðbjörgu frænku mína og Úlfar manninum hennar sem búa í Mosó og rata því takmarkað í Reykjavík þegar niður fyrir Elliðaárnar er komið. En þau römbuðu þó á áfangastað fyrir rest eftir að hafa fengið þokkalega leiðsögn símleiðis frá húsráðanda. Telst mér til að mætt hafi um 50 manns, en nokkur úr fjölskyldunni eru ýmist búsett erlendis eða dvelja þar um þessar mundir, þá voru sumir heima vegna krankleika eða veðurfarslegrar fjarlægðar og komust því ekki. Var mikill missir að hafa þau ekki með á þorrablótinu. Eftir að fólkið hafði sporðrennt kræsingunum af bestu list, var komið að því að Jón Þór frændi sýndi afrakstur auglýsingar sem hann vann að hjá fyrirtæki sínu Filmus og hafði á að skipa miklum snillingi honum Þórarni í aðalhlutverki. Þarna vann hann mikinn leiksigur og uppskar mikinn fögnuð viðstaddra sem voru á einu máli um að þarna væri á ferð mikið efni í framtíðarleikara. Af þessu tilefni greiddi framleiðandinn leikaranum, sem var á staðnum, vænan bónus að sýningu lokinni fyrir framúrskarandi leik sem, að sögn, kostaði hann næstum lífið sökum kulda á tökustað.

Þá var komið að þætti Úlfars þar sem hann sýndi myndband, sem tekið hafði verið heima hjá honum á s.l. jólum, um hvernig ætti að láta tengdamömmu gera sig arflausan. Í því myndbandi var aðalhlutverkið í höndum Bjarnheiðar Gísladóttur tengdamóður hans.  Þannig er mál með vexti að Heiða móðursystir fær bók eftir sama höfund hver jól frá Auðbjörgu og Úlfari sem hún bíður eftir með mikilli óþreyju DSC01712og á því varð engin undantekning þessi jól. En Úlfar hafði lagt á sig mikla vinnu við að búa til nýja bókarkápu ásamt því að endurplasta bókina í þeim tilgangi að sjá upplitið á tengdamóður sinni. Forsíða Bókarkápunnar sem hann hannaði og gerði svo listavel, skartaði mynd af Valgerði Sverrisdóttur með fyrirsögninni "Æviminningar Valgerðar Sverrisdóttur". Á myndbandinu mátti sjá hversu glöð Heiða móðursystir varð þegar hún fékk pakkann frá dóttur sinni og tengdasyni þegar hún umfaðmaði gjöfina um leið og hún segir; ,,þessari var ég að bíða eftir". Þar sem blessunin hún Heiða telst seint til stuðningskvenna framsóknarflokksins, hvað þá Valgerðar, þá varð upplitið á henni allt annað en bjart þegar pakkinn hafði verið tekinn upp. ,,Auðbjörg"!!! ,,Er ekki hægt að skipta þessu einhversstaðar"!!?? Úlfar hafði líka lagt mikið í baksíðu kápunnar þar sem stiklað var á því helsta um líf Valgerðar og innanflokksátök í framsóknarflokknum ásamt því hvaða skoðun hún hafi á því þegar konur gera syni og tengdasyni arflausa eftir hverjar kosningar þar sem þeir kjósi m.a. framsóknarflokkinn.. í niðurlagi stóð: ,,bók sem Heiða verður að lesa". Eins og eftir hverjar kosningar í bæjar- og landsmálapólitíkinni, þar sem Úlfar kýs að öllu jöfnu á skjön við það sem tengdamóðir hans kýs. Var hann endanlega gerður arflaus af hálfu tengdamóður sinnar fyrir þennan hrekk. 

Eftir að æðstaráðið hafði komið saman til að skera úr um það hver ætti að hafa Gíslann til varðveislu næsta árið. Komu aðeins tveir úr fjölskyldunni til greina, Úlfar "arflausi" og Magnús móðurbróðir. En Maggi hafði afrekað það að þjarma ansi ákveðið, svo vægt sé til orða tekið, að Geira bróður sínum til að borga sér skuld sem hann var að rukka í símleiðis eftir að hafa ýtt á vitlausan takka af misgáningi í hraðvali farsímans vegna gleraugnaleysis. Geiri náði þó að leiðrétta þetta þegar leið á símtalið þegar hann gat loks gert grein fyrir sér. Þess má geta að Sigurgeir verður seint talinn til skuldseigra manna. Eftir miklar umræður hjá æðstaráðinu þar sem tvísýnt var um úrslit var niðurstaðan þó sú að Úlfar væri betur að titlinum kominn, þó ekki nema væri að bæta fyrir arfleysið. Eftir að Birna og mamma kröfðust þess að fá að hjálpa við að ganga frá í eldhúsinu af stakri prýði þannig að húsráðendur hefðu minna að gera daginn eftir, héldu síðustu gestir til sýns heima. Eftir voru húsráðendur þreyttir en afskaplega glaðir og þakklátir fyrir vel heppnað kvöld.

 


Steinólfur í Fagradal

Um daginn heyrði ég "brandara" sem er gott dæmi um hvernig sögur, sannar og skáldaðar, taka breytingum þegar þær berast munnlega manna á milli. Þessi "brandari" sem ég heyrði á dögunum hafði ekki aðeins breyst frá því að flytjast landsfjórðunganna á milli, frá því ég heyrði hana fyrst fyrir nokkrum árum, heldur hafði aðalpersóna sögunnar einnig skipt um kyn! En þá að sögunni þeirri upprunalegu og sönnu að sögn, en hefur tekið stakkaskiptum manni fram að manni eins og áður segir.

Dótturdóttir Steinólfs í Fagradal á Skarðsströnd í Dölum sagði mér frá því þegar afi hennar þurfti fyrir nokkrum árum að dvelja á heilbrigðisstofnun einni í einhvern tíma. Þar hafði hann ekki alltaf verið allskostar ánægður með fæðið sem honum var boðið upp á. Einkum var Steinólfur ósáttur við að þurfa leggja sér til munns "skíthoppara" sem þar voru stundum á boðstólnum. En svo kallaði hann hænsnin og vísaði til þess að sá fiðurfénaður spígsporaði gjarnan á fjóshaugnum og væri lítt lystugur fyrir vikið. En steininn hafi þó tekið fyrst úr hjá honum þegar einn sjúkraliðinn hafi sagt Steinólfi aðspurður að þann daginn yrði snitsel í hádegismat. Ekki stóð á viðbrögðum Steinólfs: ,,Snitsel!!?? Ég hef étið landsel og útsel. En snitsel, það kvikindi hef ég aldrei heyrt um hvað þá étið"

Þeir sem átta sig ekki á hver Steinólfur er, þá var hann til að mynda í þættinum "út og suður" sem margir ættu að kannast við af RÚV undir stjórn Gísla Einarssonar. Sagði Steinólfur þar frá manni úr sinni sveit; ,,Hann var svo mikill miðill að það var "rosalegt", og heyrðist orgelleikur uppúr honum um nætur". Einnig talaði hann um álagablett nokkurn sem hafði verið sjálfgefinn áningarstaður áður fyrr, en þar var svo reimt það að mönnum reis hold af þarflausu væru þeir einir á ferð. Hann minntist líka á kynni sín af austfirskum bændum og sagði þá svo fjárglögga að þeir þekktu sviðakjammana með nafni, þó þeir hefðu legið 6 mánuði í súr.

Hér fyrir neðan er bréf sem Steinólfur reit til sýslumannsins í Búðardal til að benda á þann möguleika hvort ekki mætti veiða og nýta trjónukrabbann. Bréfið var tekið fyrir á sýslunefndarfundi og þaðan vísað til stofnana í Reykjavík sem gætu haft með þetta mál að gera. Ekki er mér kunnugt hvað kom út úr þeim málum eða hvort þessi kynja vera sé veidd í dag svo einhverju nemi. En bréfið rataði engu að síður inn í tímaritið ÚRVAL á sínum tíma, sem fyrir mörgum árum lagði upp laupana. Þá var bréfið líka birt í MBL. Það var birt óbreitt með stafsetningu Steinólfs, sem að eigin sögn segist vera lítill ufsilonmaður. Þá hefur hann ekki séð ástæðu til að sólunda stóru stöfunum að óþörfu.

Afskrifað tveimur dögum fyrir Mikjálsmessu 1984 Herra Pétur Þorsteinsson sýslumaður.

 -Alúðar heilsan óskir bestu. Þar sem ég hef sannspurt að þú sért áhugamaður sjavargagn og aðra aðskiljanlega náttúru, á, og hér framundan þessum veraldarinnar útnára sem Dalasýsla teljast má vil ég vekja athigli þína á eftirfarandi. Hér framundan láðinu bír ein sérkennileg sjókind bæði djúpt og grunnt, og virðist vera af stjarnfræðilegri stofnstærð 

 -en meðal stærð þessa kvikindis sem einstaklings er svipað og eitt handsápustikki, sava de París, en þó fram mjókkandi og endar í trjónu búkurinn, augu á stilkum svo sem marsbúar hafa og getur dýrið horft aftur firir sig og fram, og haft ifirsýn fyrir báða sína enda samtímis, leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins -tvær tennur hefur dýrið sína í hvoru munnviki og bítur saman tönnum frá hlið, tennur þessar eru ekki umluktar vörum heldur nokkurskonar fálmurum og brosir dírið þar af leiðandi sífelldlega, og þó heldur kalt -til að bera sig um hefur skepnan 10 fætur og ber kné mjög hærra en kviðinn, það er mjög krikagleitt líkt og hestamenn sem lengi hafa riðið feitu.

Ævinlega gengur dýrið útá hlið ímist til hægri eða vinstri og virðist vera mjög pólitískt, einnig má það teljast mjög siðferðislega þróað skapnaðarlega þar sem spjald vex fyrir bligðun þess mjög sléttfellilega, einna líkast skírlífisbeltum

-ekki verður dýrið kyngreint af þessum sökum nema með ofbeldi

-ef menn vilja hafa einhverja nytjar af díri þessu er afkaplega örðugt að aflífa það snyrtilega, þar sem það sökum síns skapnaðarlags fæst hvorki hengt né skorið, skotið eða rotað, því brynja hörð umlikur skepnuna gjörsamliga og er lífsseigla þessa dýrs með ílíkindum, sé það geymt í haldi á þurru landi mun sultur einn ganga frá því dauðu að því er virðist.

-bíður það þá örlaga sinna mjög stillilega en þegar því fer að eimast biðin, gefur það frá sér sladdandi hljóð, samskona sladdandi hljóð mátti heira í baðstofum hér áður firr einkum firripart nætur þegar griðkonur feitar voru knúðar sem ákafligast til frigðar

-Bíldrykkur sá sem bensín kallast hefur mér reinst einna best til að aflífa þessa skepnu óskemmda í þeim tilgangi að þurrka hana innvirðulega og gefa konum í Reikjavík ágætum og æruprýddum, sem ég hef kunningsskap við utanklæða,

-þær stilla þessum skepnum upp við hliðina á Hallgrími Péturssyni ellegar foretanum og svo innan um plattana

-tæplega mun vera vænlegt að veiða þessa skepnu í þeim tilgangi, en ef takast mætti að veiða hana í stórum stíl og upphugsa þokkalega aðferð tilað aflífa hana, vaknar sú spurning hvort ekki mætti verka þessa skepnu í dægilega krás tilað selja þjóðum

-er mér fortalið að Job danskir kaupi og eti ólíklegustu kvikindi og borgi þeim mun meira firir sem skepnan er svipljótari samkvæmt okkar smekk. i þessu skyni mætti eftil vill biðja dírðarmenn fyrir sunnan um rannsón á þessu og fá plögg, með línritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með

Vertu blessaður

 

Steinólfur Lárusson

                                                                                                                                                
                                                                                                           Trjónukrabbi:


Rallarsving - Glíma

Fyrir rúmum þremur árum komu skemmtilegir þáttarstjórnendur, Andreas og Musse, frá Z-TV í Svíþjóð til að kynna sér þjóðaríþrótt Íslendinga glímuna. Báðir eru þeir kunnir fyrir afrek sín í bardagalistum í sínu heimalandi, Andreas fyrir karate en Musse fyrir "mixed martiel arts". Í þáttum sínum fara þeir vítt og breitt um heiminn til að kynna sér alskyns fangbragða og bardagaíþróttir. Afrakstur heimsóknar þeirra hingað til lands á sínum tíma var sýndur í þætti þeirra félaga "Rallarsving". Hér má sjá  hluta þáttarins úr þessari heimsókn í þessu myndbroti:


"Hit and run" ! Lýsi eftir vitnum.

Það er alveg með ólíkindum hvað sumt fólk getur verið óforskammað!

Þannig var að konan mín átti leið í Kringluna sunnudaginn 3. febrúar s.l.. Sem í sjálfu sér er ekki frá sögum færandi, að því undanskildu að jeppinn hennar (Nissan Terrano II) var ekki eins þegar hún kom að honum og þegar hún hafði skilið við hann á bílastæðinu í bílastæðahúsi Kringlunnar (að austan verðu) hjá bókasafninu.

Þegar hún var búin að sinna erindum sínum og heldur til baka að jeppanum, tekur hún eftir að stuðarinn við hægra afturbretti er brotinn í sundur ásamt einhverjum fleiri skemmdum undir stuðaranum! Eðlilega var konunni minni brugðið en vonaðist þó eftir að sjá miða með upplýsingum frá tjónvaldi undir rúðuþurrkunni. En nei, engin voru skilaboðin frá honum, en aftur á móti skildi hann eftir sig glært vinstra stefnuljós á vettvangi (tegund: 2259 015465  Dot SAE P91  ICHIKOH 3336 JAPAN L) sem reynist vera af Subaru Impreza árgerð '94-'00

Konan mín hafði strax tal af öryggisvörðum Kringlunnar til að ganga úr skugga um hvort svo heppilega vildi til að þeir hefðu náð atvikinu á myndband. Öryggismyndavél bílastæðahússins sem sett hafði verið upp viku áður var ennþá ótengd! Þ.a.l. engar myndir til af því þegar skemmdarverkið er framið! Það skal þó tekið fram að öryggisverðirnir voru afskaplega hjálplegir og mynduðu tjónið og vettvang og skráðu helstu punkta niður.
 
Tjónið á jeppanum er talsvert og þungur biti að kyngja þegar maður þarf að borga það úr eigin vasa. Þeir aðilar sem voru í bílastæðahúsi Kringlunnar að austan verðu hjá bókasafninu milli kl. 13:30 og 17:13 á sunnudaginn 3. febrúar s.l. og kunna að hafa orðið vitni af þessari utaníkeyrslu og geta lýst t.d. bílnum, bíllit eða bílnúmeri. Eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í Reykjavík í síma 4441000 eða við undirritaðan í síma 6990019
 
Ps.
Ef svo heppilega vildi til að viðkomandi aðili sem tjóninu olli, læsi þetta og hefði samvisku til að bæta fyrir verknaðinn. Er hann vinsamlegast beðinn um að hafa samband við undirritaðan.
 
Með kveðju,
Jón Birgir Valsson
sími: 6990019
E-mail: [email]6990019@internet.is[/email]
Myndir af tjóninu ásamt "minjagrip" frá tjónvaldi:
mynd007vx2mynd006my0


Amma ,,bloggaði" í den

Ég átti nú ekki von á því að það ætti fyrir mér að lyggja að blogga...og þó. Má segja að ég hafi kynnst svona skrifum sem barn. Er ég dvaldi hjá afa og ömmu í Hausthúsum öðru hverju í æsku. Amma, sem hét Auðbjörg, hélt um langt skeið dagbók sem hún skrifaði í um menn, málefni, veðurfar, blessaðar skeppnurnar og margt fleira sem á daga hennar dró. Kannski má segja að amma hafi verið bloggari síns tíma!?

Hér eru tvö dæmi um dagbókarfærslur ömmu frá 1970...

,,Föstudagur 10.apríl

4 st. frost var í nótt. En það er logn. Við Gísli fórum í Borgarnes. Vegurinn er sæmilegur, það þyðnar svo rólega ennþá. Allt hækkar endalaust. Nú er ....... tvinnakefli 15 krónur, var 5 krónur fyrir tveimur árum. Tegju spjald er nú 22,10, eitt rúgbrauð 30 krónur núna í Borgarnesi, svona er allt. Jóna og Valur fóru inn í Stykkishólm.

...og hin færslan frá sama ári

Fimmtudagur. 30. apríl 2. v. sumars.

Nú er fínt veður í dag. Það var tekið af tveimur gemlingum, búið að taka af þremur. Spóinn vall aftur í dag og það er bara vorlegt úti. Það var 7 st. hiti kl. 10 í kvöld. Hér komu hjón úr Ólafsvík að byðja Gísla fyrir hest til að taka á tölt. Trausti kom til að járna Gjöf (Skjónu) með þeim í fyrsta sinn."

Stundum komu þessar dagbókarfærslur sér vel fyrir gömlu hjónin. T.d. þegar þurfti að ath með rafmagnsnotkun aftur í tímann, veðurfar mánuðinum áður, hvaða dag Huppa bar og svo verðlag frá ári til árs, eins hér má sjá fyrir ofan.

En allavega ætla ég reyna mitt besta til að feta í spor ömmu og reyna að skrifa eithvað um mín hugðarefni öðru hvoru hérna á blogginu. Þó það efni verði aðeins af öðrum toga en það sem móðuramma mín reit forðum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband