29.12.2006 | 11:36
Amma ,,bloggaði" í den
Ég átti nú ekki von á því að það ætti fyrir mér að lyggja að blogga...og þó. Má segja að ég hafi kynnst svona skrifum sem barn. Er ég dvaldi hjá afa og ömmu í Hausthúsum öðru hverju í æsku. Amma, sem hét Auðbjörg, hélt um langt skeið dagbók sem hún skrifaði í um menn, málefni, veðurfar, blessaðar skeppnurnar og margt fleira sem á daga hennar dró. Kannski má segja að amma hafi verið bloggari síns tíma!?
Hér eru tvö dæmi um dagbókarfærslur ömmu frá 1970...
,,Föstudagur 10.apríl
4 st. frost var í nótt. En það er logn. Við Gísli fórum í Borgarnes. Vegurinn er sæmilegur, það þyðnar svo rólega ennþá. Allt hækkar endalaust. Nú er ....... tvinnakefli 15 krónur, var 5 krónur fyrir tveimur árum. Tegju spjald er nú 22,10, eitt rúgbrauð 30 krónur núna í Borgarnesi, svona er allt. Jóna og Valur fóru inn í Stykkishólm.
...og hin færslan frá sama ári
Fimmtudagur. 30. apríl 2. v. sumars.
Nú er fínt veður í dag. Það var tekið af tveimur gemlingum, búið að taka af þremur. Spóinn vall aftur í dag og það er bara vorlegt úti. Það var 7 st. hiti kl. 10 í kvöld. Hér komu hjón úr Ólafsvík að byðja Gísla fyrir hest til að taka á tölt. Trausti kom til að járna Gjöf (Skjónu) með þeim í fyrsta sinn."
Stundum komu þessar dagbókarfærslur sér vel fyrir gömlu hjónin. T.d. þegar þurfti að ath með rafmagnsnotkun aftur í tímann, veðurfar mánuðinum áður, hvaða dag Huppa bar og svo verðlag frá ári til árs, eins hér má sjá fyrir ofan.
En allavega ætla ég reyna mitt besta til að feta í spor ömmu og reyna að skrifa eithvað um mín hugðarefni öðru hvoru hérna á blogginu. Þó það efni verði aðeins af öðrum toga en það sem móðuramma mín reit forðum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 28.2.2008 kl. 23:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.