Hausthúsar þorrablót

Afi og amma, ásamt börnum á sextugsafm. 1975

Síðan Gísli afi og Auðbjörg amma frá Hausthúsum á Snæfellsnesi kvöddu þetta jarðlíf (amma 1993 og afi 1994), þá hafa afkomendur og tengdabörn minnst þeirra með því að koma saman á þorranum allar götur síðan 1994 með því að borða saman góðan mat, þ.m.t. þorramat. Fáum árum seinna bættust við afkomendur Benediktu (systur ömmu) og Teits mannsins hennar, sem bæði eru látin. Ýmsar hefðir hafa skapast frá því að hópurinn hóf fyrst að koma saman af þessu tilefni eins og gengur og gerist hjá stórfjölskyldum.

Hefðirnar eru í megin dráttum þessar: Skipst er á að halda þetta heima hjá þeim sem hafa nóg húsrúm til að hýsa veislurnar sem geta talið ca. 70 manneskjur í dag (ef allir myndu mæta). Hver og ein fjölskylda leggur til mat í veisluborðið allt frá kæstum hákarli og gallsúru hvalrengi í forrétt, til heimatilbúinna blandaðra ávaxta og háklassa ís frá París í eftirrétt, semsagt eitthvað fyrir allaDSC01703. Þá er gjarnan fluttur fjölskylduannáll á léttu nótunum af Jóhannesi Bekk, tengdasyni afa og ömmu eða Þórarni Magna, dóttursyni þeirra, þar sem stiklað er á stóru í lífi hverrar fjölskyldu. Einnig er dúkkað upp með önnur atriði sem eru af ýmsu tagi milli ára. Það hefur m.a. verið boðið upp á leikþætti, leiki, rímur, söng, "heima" gert videó og gamanmál. Þegar líða tekur á kvöldið kemur æðsta ráð stórfjölskyldunnar saman til að útnefna þann sem hefur skarað fram úr á s.l. ári á einhvern hátt. Eru tilefni tilnefninga oft æði misjöfn, allt frá eftirminnilegum hrekkjum (meinlausum þó) til einhverslags afreka eða leiksigra. Verðlaunin er farandgripur til eins árs í senn sem hefur verið nefndur Gíslinn. Gripur þessi (ca. 40 cm hár) stendur á eikarstöpli þar sem fjórir ryðfríir stálteinar standa upp úr honum miðjum, sem enda svo á að um liggja græna netaglerkúlu. Kúlan var áður í eigu Jónu móður minnar og átti hún þá hugmynd hvort ekki mætti útbúa einhvern farandgrip í þorrablót fjölskyldunnar þar sem kúlan væri miðdepill verksins þar sem hún hefði svo sterka skírskotun til Hausthúsa sem liggur jú að sjó. Gripurinn var síðan fullhannaður og smíðaður af Magnúsi Gíslasyni í kringum aldamótin síðustu á verkstæði hans Stálprýði. Þetta er mikið listaverk og er það jafnan mikill heiður fyrir hvern þann sem vinnur til þessa grips og þar með titlaður "Gíslatökumaður" í eitt ár. Oftast endar svo dagskráin með miklum söng og gítarspili fram undir morgun. 

 Á laugardaginn 9 febrúar s.l. var komið að því að halda þessa stórhátíð heima hjá okkur hjónunum.  Blásið var til veislu klukkan 19:00 og voru flestir mættir á tilsettum tíma, uDSC01713tan Auðbjörgu frænku mína og Úlfar manninum hennar sem búa í Mosó og rata því takmarkað í Reykjavík þegar niður fyrir Elliðaárnar er komið. En þau römbuðu þó á áfangastað fyrir rest eftir að hafa fengið þokkalega leiðsögn símleiðis frá húsráðanda. Telst mér til að mætt hafi um 50 manns, en nokkur úr fjölskyldunni eru ýmist búsett erlendis eða dvelja þar um þessar mundir, þá voru sumir heima vegna krankleika eða veðurfarslegrar fjarlægðar og komust því ekki. Var mikill missir að hafa þau ekki með á þorrablótinu. Eftir að fólkið hafði sporðrennt kræsingunum af bestu list, var komið að því að Jón Þór frændi sýndi afrakstur auglýsingar sem hann vann að hjá fyrirtæki sínu Filmus og hafði á að skipa miklum snillingi honum Þórarni í aðalhlutverki. Þarna vann hann mikinn leiksigur og uppskar mikinn fögnuð viðstaddra sem voru á einu máli um að þarna væri á ferð mikið efni í framtíðarleikara. Af þessu tilefni greiddi framleiðandinn leikaranum, sem var á staðnum, vænan bónus að sýningu lokinni fyrir framúrskarandi leik sem, að sögn, kostaði hann næstum lífið sökum kulda á tökustað.

Þá var komið að þætti Úlfars þar sem hann sýndi myndband, sem tekið hafði verið heima hjá honum á s.l. jólum, um hvernig ætti að láta tengdamömmu gera sig arflausan. Í því myndbandi var aðalhlutverkið í höndum Bjarnheiðar Gísladóttur tengdamóður hans.  Þannig er mál með vexti að Heiða móðursystir fær bók eftir sama höfund hver jól frá Auðbjörgu og Úlfari sem hún bíður eftir með mikilli óþreyju DSC01712og á því varð engin undantekning þessi jól. En Úlfar hafði lagt á sig mikla vinnu við að búa til nýja bókarkápu ásamt því að endurplasta bókina í þeim tilgangi að sjá upplitið á tengdamóður sinni. Forsíða Bókarkápunnar sem hann hannaði og gerði svo listavel, skartaði mynd af Valgerði Sverrisdóttur með fyrirsögninni "Æviminningar Valgerðar Sverrisdóttur". Á myndbandinu mátti sjá hversu glöð Heiða móðursystir varð þegar hún fékk pakkann frá dóttur sinni og tengdasyni þegar hún umfaðmaði gjöfina um leið og hún segir; ,,þessari var ég að bíða eftir". Þar sem blessunin hún Heiða telst seint til stuðningskvenna framsóknarflokksins, hvað þá Valgerðar, þá varð upplitið á henni allt annað en bjart þegar pakkinn hafði verið tekinn upp. ,,Auðbjörg"!!! ,,Er ekki hægt að skipta þessu einhversstaðar"!!?? Úlfar hafði líka lagt mikið í baksíðu kápunnar þar sem stiklað var á því helsta um líf Valgerðar og innanflokksátök í framsóknarflokknum ásamt því hvaða skoðun hún hafi á því þegar konur gera syni og tengdasyni arflausa eftir hverjar kosningar þar sem þeir kjósi m.a. framsóknarflokkinn.. í niðurlagi stóð: ,,bók sem Heiða verður að lesa". Eins og eftir hverjar kosningar í bæjar- og landsmálapólitíkinni, þar sem Úlfar kýs að öllu jöfnu á skjön við það sem tengdamóðir hans kýs. Var hann endanlega gerður arflaus af hálfu tengdamóður sinnar fyrir þennan hrekk. 

Eftir að æðstaráðið hafði komið saman til að skera úr um það hver ætti að hafa Gíslann til varðveislu næsta árið. Komu aðeins tveir úr fjölskyldunni til greina, Úlfar "arflausi" og Magnús móðurbróðir. En Maggi hafði afrekað það að þjarma ansi ákveðið, svo vægt sé til orða tekið, að Geira bróður sínum til að borga sér skuld sem hann var að rukka í símleiðis eftir að hafa ýtt á vitlausan takka af misgáningi í hraðvali farsímans vegna gleraugnaleysis. Geiri náði þó að leiðrétta þetta þegar leið á símtalið þegar hann gat loks gert grein fyrir sér. Þess má geta að Sigurgeir verður seint talinn til skuldseigra manna. Eftir miklar umræður hjá æðstaráðinu þar sem tvísýnt var um úrslit var niðurstaðan þó sú að Úlfar væri betur að titlinum kominn, þó ekki nema væri að bæta fyrir arfleysið. Eftir að Birna og mamma kröfðust þess að fá að hjálpa við að ganga frá í eldhúsinu af stakri prýði þannig að húsráðendur hefðu minna að gera daginn eftir, héldu síðustu gestir til sýns heima. Eftir voru húsráðendur þreyttir en afskaplega glaðir og þakklátir fyrir vel heppnað kvöld.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband