13.2.2008 | 12:11
Steinólfur í Fagradal
Um daginn heyrði ég "brandara" sem er gott dæmi um hvernig sögur, sannar og skáldaðar, taka breytingum þegar þær berast munnlega manna á milli. Þessi "brandari" sem ég heyrði á dögunum hafði ekki aðeins breyst frá því að flytjast landsfjórðunganna á milli, frá því ég heyrði hana fyrst fyrir nokkrum árum, heldur hafði aðalpersóna sögunnar einnig skipt um kyn! En þá að sögunni þeirri upprunalegu og sönnu að sögn, en hefur tekið stakkaskiptum manni fram að manni eins og áður segir.
Dótturdóttir Steinólfs í Fagradal á Skarðsströnd í Dölum sagði mér frá því þegar afi hennar þurfti fyrir nokkrum árum að dvelja á heilbrigðisstofnun einni í einhvern tíma. Þar hafði hann ekki alltaf verið allskostar ánægður með fæðið sem honum var boðið upp á. Einkum var Steinólfur ósáttur við að þurfa leggja sér til munns "skíthoppara" sem þar voru stundum á boðstólnum. En svo kallaði hann hænsnin og vísaði til þess að sá fiðurfénaður spígsporaði gjarnan á fjóshaugnum og væri lítt lystugur fyrir vikið. En steininn hafi þó tekið fyrst úr hjá honum þegar einn sjúkraliðinn hafi sagt Steinólfi aðspurður að þann daginn yrði snitsel í hádegismat. Ekki stóð á viðbrögðum Steinólfs: ,,Snitsel!!?? Ég hef étið landsel og útsel. En snitsel, það kvikindi hef ég aldrei heyrt um hvað þá étið"
Þeir sem átta sig ekki á hver Steinólfur er, þá var hann til að mynda í þættinum "út og suður" sem margir ættu að kannast við af RÚV undir stjórn Gísla Einarssonar. Sagði Steinólfur þar frá manni úr sinni sveit; ,,Hann var svo mikill miðill að það var "rosalegt", og heyrðist orgelleikur uppúr honum um nætur". Einnig talaði hann um álagablett nokkurn sem hafði verið sjálfgefinn áningarstaður áður fyrr, en þar var svo reimt það að mönnum reis hold af þarflausu væru þeir einir á ferð. Hann minntist líka á kynni sín af austfirskum bændum og sagði þá svo fjárglögga að þeir þekktu sviðakjammana með nafni, þó þeir hefðu legið 6 mánuði í súr.
Hér fyrir neðan er bréf sem Steinólfur reit til sýslumannsins í Búðardal til að benda á þann möguleika hvort ekki mætti veiða og nýta trjónukrabbann. Bréfið var tekið fyrir á sýslunefndarfundi og þaðan vísað til stofnana í Reykjavík sem gætu haft með þetta mál að gera. Ekki er mér kunnugt hvað kom út úr þeim málum eða hvort þessi kynja vera sé veidd í dag svo einhverju nemi. En bréfið rataði engu að síður inn í tímaritið ÚRVAL á sínum tíma, sem fyrir mörgum árum lagði upp laupana. Þá var bréfið líka birt í MBL. Það var birt óbreitt með stafsetningu Steinólfs, sem að eigin sögn segist vera lítill ufsilonmaður. Þá hefur hann ekki séð ástæðu til að sólunda stóru stöfunum að óþörfu.
Afskrifað tveimur dögum fyrir Mikjálsmessu 1984 Herra Pétur Þorsteinsson sýslumaður.
-Alúðar heilsan óskir bestu. Þar sem ég hef sannspurt að þú sért áhugamaður sjavargagn og aðra aðskiljanlega náttúru, á, og hér framundan þessum veraldarinnar útnára sem Dalasýsla teljast má vil ég vekja athigli þína á eftirfarandi. Hér framundan láðinu bír ein sérkennileg sjókind bæði djúpt og grunnt, og virðist vera af stjarnfræðilegri stofnstærð
-en meðal stærð þessa kvikindis sem einstaklings er svipað og eitt handsápustikki, sava de París, en þó fram mjókkandi og endar í trjónu búkurinn, augu á stilkum svo sem marsbúar hafa og getur dýrið horft aftur firir sig og fram, og haft ifirsýn fyrir báða sína enda samtímis, leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins -tvær tennur hefur dýrið sína í hvoru munnviki og bítur saman tönnum frá hlið, tennur þessar eru ekki umluktar vörum heldur nokkurskonar fálmurum og brosir dírið þar af leiðandi sífelldlega, og þó heldur kalt -til að bera sig um hefur skepnan 10 fætur og ber kné mjög hærra en kviðinn, það er mjög krikagleitt líkt og hestamenn sem lengi hafa riðið feitu.
Ævinlega gengur dýrið útá hlið ímist til hægri eða vinstri og virðist vera mjög pólitískt, einnig má það teljast mjög siðferðislega þróað skapnaðarlega þar sem spjald vex fyrir bligðun þess mjög sléttfellilega, einna líkast skírlífisbeltum
-ekki verður dýrið kyngreint af þessum sökum nema með ofbeldi
-ef menn vilja hafa einhverja nytjar af díri þessu er afkaplega örðugt að aflífa það snyrtilega, þar sem það sökum síns skapnaðarlags fæst hvorki hengt né skorið, skotið eða rotað, því brynja hörð umlikur skepnuna gjörsamliga og er lífsseigla þessa dýrs með ílíkindum, sé það geymt í haldi á þurru landi mun sultur einn ganga frá því dauðu að því er virðist.
-bíður það þá örlaga sinna mjög stillilega en þegar því fer að eimast biðin, gefur það frá sér sladdandi hljóð, samskona sladdandi hljóð mátti heira í baðstofum hér áður firr einkum firripart nætur þegar griðkonur feitar voru knúðar sem ákafligast til frigðar
-Bíldrykkur sá sem bensín kallast hefur mér reinst einna best til að aflífa þessa skepnu óskemmda í þeim tilgangi að þurrka hana innvirðulega og gefa konum í Reikjavík ágætum og æruprýddum, sem ég hef kunningsskap við utanklæða,
-þær stilla þessum skepnum upp við hliðina á Hallgrími Péturssyni ellegar foretanum og svo innan um plattana
-tæplega mun vera vænlegt að veiða þessa skepnu í þeim tilgangi, en ef takast mætti að veiða hana í stórum stíl og upphugsa þokkalega aðferð tilað aflífa hana, vaknar sú spurning hvort ekki mætti verka þessa skepnu í dægilega krás tilað selja þjóðum
-er mér fortalið að Job danskir kaupi og eti ólíklegustu kvikindi og borgi þeim mun meira firir sem skepnan er svipljótari samkvæmt okkar smekk. i þessu skyni mætti eftil vill biðja dírðarmenn fyrir sunnan um rannsón á þessu og fá plögg, með línritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með
Vertu blessaður
Steinólfur Lárusson
Trjónukrabbi:
Flokkur: Sögur af fólki | Breytt 28.2.2008 kl. 21:50 | Facebook
Athugasemdir
Margar góðar sögur eru til af Steinólfi. Tók mér það bessaleyfi að kópera þessa færslu þína til að sýna mágkonu minni Seseliu Steinólfsdóttur.
Runólfur Jónatan Hauksson, 13.2.2008 kl. 12:34
Bara í fínu lagi mín vegna Runólfur, verði þér að góðu.
Jón Birgir Valsson, 13.2.2008 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.